Hugdetta er vöru- og innanhússhönnunarfyrirtæki með aðsetur á Norðurlandi. Hjónin Róshildur Jónsdóttir og Snæbjörn Þór Stefánsson stofnuðu fyrirtækið árið 2008 og hafa hannað og framleitt sínar eigin vörur síðan og auk þess hafa þau tekið að sér verkefni á borð við innanhússhönnun og arkítektúr.
Bæði Róshildur og Snæbjörn útskrifuðust úr vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2006.
Nokkur af stærstu verkefnum þeirra hafa verið að hanna og byggja eigin lúxusgistingu, bæði Grettisborg í Reykjavík og Svörtuborg á Norðurlandi.
Þau hafa líka hannað almenningsrými af margvíslegum toga, allt frá skrifstofum, sviðsmyndum, börum og veitingastað í New York til barnadeildar á sjúkrahúsi svo eitthvað sé nefnt.
Þau stofnuðu einnig hönnunarhópinn 1+1+1 ásamt kollegum sínum Petra Lilja frá Svíþjóð og AaltoAalto frá Finnlandi.  Þar fá hjónin útrás fyrir þá listrænu hönnun "Art Design" sem skipar stóran sess í þeirra hönnunarstefnu.  
Hugdetta hefur sýnt á alþjóðlegum hönnunarsýningum um allan heim, húsgagnasýningum í Stokkhólmi, Malmö, Kalmar, Helsinki, Tókýó og Seúl, London og Dubai auk nokkurra samsýninga sem hafa farið víða. Hugdetta hefur einnig tekið þátt í mörgum sýningum á Íslandi, svo sem Hönnunarmars í Reykjavík árlega síðan 2009.